22.5.2009 | 15:17
Framsókn í Moggahöllina...
Mikið er umræðan um framsóknarherbergið orðin þreytt. Hvers vegna hætta þeir þessu ekki. Þeir áttu auðvitað að samþykkja flutninginn strax með glöðu geði og kalla til ljósmyndara og fréttamenn og vekja athygli á því hvað þeir væru jákvæðir og hressir og hefðu nóg á sinni könnu við að bjarga þjóðinni úr ógöngunum sem þeir áttu þátt í að koma henni í! Það eru önnur mál sem skipta máli í umræðunni en þetta.
Varðandi Moggahöllina þá skil ég vel að menn séu tregir að fara þangað. Hefði haldið að ríkisstjórnarflokkarnir, hverju sinni, ættu að fá að vera í gamla Alþingishúsinu; það væri ágætis regla.
Legg til að þingmönnum verði fækkað niður í 43 og landið gert að einu kjördæmi. Úr því sem komið er er það besta lausnin. Við það fæst líka meira rými fyrir þingmenn, óþarfa tuð minnkar vegna þess að það verður ekki tími fyrir það og ríkið sparar peninga í leiðinni.
14 sitja fundi þingflokks framsóknarmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2009 | 22:34
Það var eins gott að ég bauðst ekki til að éta hattinn minn...
Ég lagði það á mig að vaka í gær og bíða eftir úrslitunum í ameríska Idolinu. Ég var sannfærð um að Adam Lambert myndi hafa þetta enda fannst mér hann langbesti söngvarinn í keppninni. Fékk samt eitthvað hugboð rétt fyrir úrslitin um að hann ynni ekki og það stóð heima.
Hvað ætli hafi ráðið úrslitum á endanum hjá amerísku þjóðinni? Hef tekið eftir að mikið var og er skrifað t.d. á You Tube um að hann sé ,,gay". En hverjum er ekki sama um það! Var þetta kannski baráttan milli ,,stráksins í næsta húsi" og þess sem ,,vill mála sig í framan" eins og mig mynnir að kynnirinn hafi sagt. Furðuleg framsetning hjá honum.
Ég hélt alla vegana með mínum manni allt til enda og fór afar ósátt í háttinn eftir keppnina. Var næstum búin að lofa því fyrir nokkrum vikum að éta hattinn minn ef hann ynni ekki...það var eins gott að ég gerði það ekki.
100 milljónir kusu í American Idol | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2009 | 13:01
Svona er Sauðárkrókur í dag...
Það er blíðan á landinu í dag. Nú styttist í að ég fari aftur heim í Skagafjörðinn. Ritgerðin langt komin en samt sem áður nokkur vinna eftir.
Eitt af því sem ég hef gert reglulega í vetur er að fara inn á www.skagafjordur.is og kíkja á vefmyndavélarnar til að sjá hvernig viðrar heima. Þessi mynd sem hér fylgir er tekin úr vefmyndavélinni á Heilbrigðisstofnuninni. Fór að velta fyrir mér þessum geisla sem nær þarna beint upp í loftið. Það er eins og einhver sé að yfirgefa hið jarðneska líf... nú eða þá að einhver sé að koma til okkar að ofan. Sennilega er þetta glampi sólarinnar því þegar ég hafði ýtt á ,,refresh" tvisvar þá var glampinn horfinn. Samt svolítið magnað.
Annars vil ég minna á mikilvægi vefmyndavélanna um allt land. Ég fer til dæmis aldrei á milli Sauðárkróks og Reykjavíkur nema skoða myndavélarnar. Öryggi vegfarenda hefur aukist við komu þeirra.
Þannig að veðrið leikur við flesta landsmenn í dag...en nákvæmlega svona er veðrið fyrir norðan í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.5.2009 | 16:22
Röflað yfir litlu...
Ótrúlegt hvað menn nenna að röfla yfir litlu. Nú finnst Framsóknarflokknum sem hann eigi ákveðið fundarherbergi í húsi Alþingis. Það er einmitt þetta viðhorf stjórnmálamanna sem þarf að stoppa; að menn eigi rétt á hinu eða þessu eða eigi þetta eða hitt.
Sigmundur Davíð, formaður Framsóknarflokksins, gefur í skyn að flokkurinn fari stækkandi og því eigi hann að halda fundarherberginu. Eigum við ekki fyrst að sjá til með það hvort flokkurinn stækki, því þegar búið verður að jafna vægi atkvæða á milli kjördæma þá er ég hrædd um að flokkurinn minnki aftur.
Við upphaf Alþingis draga menn um sæti. Geri ráð fyrir að flestir séu sáttir við það enda ákveðið réttlæti í því. Fundarherbergjum á að úthluta eftir stærð flokkanna. Punktur og basta.
Vilja ekki flytja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.5.2009 | 15:42
Neiiii, ekki aftur...
,,Nei, ekki aftur", segi ég nú bara. Þriðji eða fjórði ísbjörninn genginn á land á einu ári! Hvað gerum við Skagfirðingar nú? Nú er tækifærið til að stofna ísbjarnagarð eða griðland ísbjarna. Skaginn er fínn fyrir það. Það myndi trekkja að ferðamenn í Skagafjörðinn og stutt að flytja birnina þangað.
Þessir ferðamenn fengu alla vegana meira fyrir sinn snúð en upphaflega stóð til, geri ég ráð fyrir.
Þetta er samt alvöru mál. Sé fyrir mér skokkara úr skokkhópnum á Króknum eða hjólreiðamann...eða fjölskyldu að tjalda. Ekki gott mál...en svona er Skagafjörðurinn í dag!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.5.2009 | 15:31
Nú skall ,,húdd" nærri hælum...
Í haust fagnaði ég þeim áfanga að eiga skuldlausan smábíl. Ég keypti hann nýjan haustið 2005. Þetta er gæðabíll sem hefur reynst mér og mínum vel. Ég og Þorgerður systir mín, ásamt Áslaugu dóttur minni vorum í smá bíltúr í gærkvöldi. Við komum að gatnamótunum Þar sem fyrir var bilaður bíll sem ekki komst áfram.
,,Eigum við ekki að athuga hvort við getum hjálpað", sagði ég við Þorgerði, sem var bílstjóri í ferðinni. ,,Hvað, við getum ekki hjálpað, nema kannski við að ýta bílnum", sagði hún.
Við skrúfuðum niður rúðuna og göntuðumst með það að það væri nú engin hjálp í svona konum, eins og okkur.
Bílstjórinn, sem var kominn á kaf í vélina hjá sér, leit upp og sagðist vel geta þegið hjálp. Spurði hvort hann mætti tengja á milli og fá hjá okkur rafmagn. Mikið var ég stolt af Meganinum mínum þarna. Í fyrsta skipti gátum við hjálpað einhverjum í nauð. Ef það er ekki alvörumál og vandræðalegt að vera rafmagnslaus á ljósum í Reykjavík, ja þá veit ég ekki hvað á að kalla það.
Eftir smá fát og fum við að finna opnunartakkann á húddinu og síðan að opna sjálft húddið þá tengdi gaurinn á milli og startaði sínum bíl. Segir ekki meira af því en hann lokaði síðan húddinu á okkar bíl og kvaddi okkur með virktum og við héldum okkar leið.
Skyndilega, eftir nokkurra mínútna akstur í rokinu fauk húddið upp og nánast á framrúðuna. Allt varð grátt...eða silvurlitað. Reynsluboltinn Þorgerður bremsaði snilldarlega og án þess að rekast utan í kantstein stoppaði hún bílinn. Hann hafði þá ekki lokað húddinu nógu vel, blessaður gatnamótagaurinn. Okkur tókst að þvínga húddið niður og loka því. Húddið má muna sinn fífil fegri. Því verður skipt út fyrir nýtt fljótlega.
Hvað lærðum við þarna. Í fyrsta lagi, alltaf að ganga úr skugga um að hlutirnir séu í lagi (vona að flugfreyjurnar passi þetta áður en flogið er) það felst engin vantraustsyfirlýsing í því og í öðru lagi að vera á réttum hraða. Við ókum á sirka 40 km hraða og vorum rétt ókomnar út á Hafnarfjarðarveginn. Það er ekki víst að þetta óhapp hefði endað eins vel ef við hefðum verið komnar þangað. Þarna skall hurð nærri hælum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2009 | 21:52
Þá er skýringin komin...nú bretti ég upp ermar!
Þá er svarið við síðustu færslu komið...alla vegana að hluta til. Svarið kom nú bara úr innsta hring fjölskyldunnar.
,,Skilurðu þetta ekki ennþá", spurði hinn helmingurinn, á línunni norðan frá Króknum.
,,Nei", ég á erfitt með það", svaraði ég, enn í borg regndropanna.
,,Verðbæturnar er reiknaðar út miðað við verðbólgu síðustu tólf mánuði", minnir mig að bóndinn hafi sagt. Já ég segi ,,minnir mig" því þetta er ekki alveg mín deild að skilja þetta. Minn styrkleiki liggur í mjúku málunum; eins og því sem ég er að læra þessa mánuðina.
Ég bretti upp ermar og ákvað að rjúka í bankastjórann á Króknum og fá upplýsingar um hvers konar reikning væri skynsamlegt að stofna eins og staðan væri í dag. Og þá kemur rúsínan í pylsuendanum og ég vona að ég sé ekki að segja nein leyndarmál hér. Bankastjórinn ráðlagði mér, eða öllu heldur dætrum mínu, að hreyfa ekki reikningana fyrr en eftir næstu mánaðarmót því það sem dregið hafði verið út af reikningum þeirra kæmi aftur inn um næstu mánaðarmót. Eftir það yrði verðhjöðnun hröð og þá er eins gott að leggja peningana inn á bók með föstum vöxtum.
Það er einmitt þetta sem stelpurnar mínar ætla að gera í byrjun júní.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2009 | 01:41
Verðhjöðnun...því þarf ég að borga bankanum??
Dætur mínar voru svo heppnar fyrir nokkrum árum að erfa smá pening eftir ömmu sína. Þessa peninga lögðu þær inn á bankabók, svokallaðan Framtíðargrunn hjá Landsbankanum. Bókin ber 7,5% vexti og verðtryggingu að auki. Verðbætur hafa lagst á höfuðstólinn mánaðarlega.
Í febrúar á síðasta ári voru verðbæturnar neikvæðar. Með öðrum orðum bankinn dró ákveðna upphæð út af reikningunum í stað þess að leggja inn á þá. Það sama gerðist nú um þessi mánaðarmót, nema hvað upphæðin var tíu sinnum hærri nú en fyrir ári.
Við þurfum hjálp til að skilja þetta á mannamáli. Við héldum að verðbætur væru til að bæta fyrir það að peningarnir rýrnuðu vegna verðbólgu. Ef verðbólgan væri 15 % þá væru verðbæturnar líka 15%. Ef verðbólgan lækkaði í 11% þá yrðu bæturnar 11%. En hvers vegna er dregið af sparifénu þegar verðbólgan lækkar? Við héldum að bæturnar yrðu einfaldlega lægri!
Hef reyndar rætt þetta við starfsfólk Landsbankans en er eftir sem áður engu nær.
Ef einhver sem skilur þetta skildi nú slysast til að lesa þetta væri gott að fá útskýringar á þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2009 | 19:35
Veisla á Hótel Pabba...
Í dag fór pabbi í stuttbuxurnar enda stóðu mikið til. Í kvöldmatinn var gæs, brúnaðar kartöflur, grænmeti og uppbökuð rjómasósa. Ítalskt eðal rauðvín var drukkið með. Á sumardaginn fyrsta fór hann líka í stuttbuxurnar sínar, þá eldaði hann humar í hvítlaukssósu.
Við mæðgur, ég og Áslaug Sóllilja, eru gestir á Hótel Pabba í nokkrar vikur og hér lifum við eins og blóm í eggi. Ég á ekki nógu sterk lýsingarorð til að lýsa sósunni meða gæsinni. Pabbi tók hrósinu af lítillæti en benti á bikar uppi á hillu sem hann fékk fyrir að vera besti sósugerðarmaðurinn hjá félögum sínum fyrir nokkru.
Skemmtilega sögðu sagði hann okkur yfir matnum. Eitt sinn þegar pabbi var 15 ára lá amma á spítala í nokkrar vikur. Pabbi vildi ekki borða neins staðar annars staðar en heima og hann eldaði ofan í sig og yngri bróður sinn, Þór á meðan amma var í burtu.
,,Og hvað var í matinn", spurði ég.
,,Lax, æðarfugl og ávaxtagrautur", svaraði pabbi um hæl.
,,Hvar fékkstu lax og æðarfugl"?, spurði ég.
,,Nú, ég fór og veiddi lax í Blöndu og svo fór ég niður í fjöru og skaut æðarfugl", svaraði sá gamli. ,,og grautinn bjó ég til úr þurkuðum eplum, apríkósum og sveskjum. Sauð hann í hálftíma og þykkti hann aðeins með kartöflumjöli. Hann dugði í tvo til þrjá daga með hnausþykkum rjóma", sagði hann og bætti svo við með þungri áherslu: ,,þetta var sko áður en pítsuöldin gekk í garð á Íslandi".
Það er ekki kreppa í eldhúsinu hjá pabba. Það leynist ýmislegt í frystikistunni hans, sem hann nýtir þessa dagana. Hjá okkur mæðgum eru ,,jólin" og ilmurinn úr eldhúsinu er svo lokkandi...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2009 | 12:07
Ríkisstjórnin komi sér saman um EB...
Ég kaus áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf. Í mínum huga er nóg komið af því sukki og svínaríi sem viðgengist hefur undanfarin ár og fáir hafa þorað að fetta fingur út í.
Kosningarnar voru ekkert spennandi vegna þess að kannanir höfðu gefið sterkt til kynna hvernig landsmenn ætluðu að kjósa. Kolbrún Halldósrsdóttir sá til þess að sigur Vinstri grænna varð ekki eins stór og hefði getað orðið. Hver ætli sé hennar ráðgjafi í pólitík?
Framsókn fékk meira fylgi en ég átti vona á. Þar kemur til dæmis Norðvestur kjördæmi sterkt inn. geri ráð fyrir að Skagfirðingar hafi kosið sinn mann úr Farmsókn og ekki skemmdi Guðmundur Steingríms fyrir í öðru sætinu. Hann verður örugglega góður þingmaður.
Sammála því að Bjarni Ben virtist yfirvegaður og rólegur yfir úrslitunum þótt ekki væri hann ánægður. Hann er ungur og á vafalaust framtíðina fyrir sér ef hann spilar rétt úr sínum spilum. Það hlýtur að vera erfitt að vera í hans stöðu, það er að segja að verða trúverðugur stjórnmálamaður og eiga svo mikilla hagsmuna að gæta á öðrum sviðum á sama tíma.
Flokkarnir í ríkisstjórn eiga að vinna saman áfram; til þess er ætlast. Vona að þeir láti ekki fjölmiðlana stjórna framvindunni. Það er ekki hlutverk fjölmiðlanna að stjórna atburðarásinni, eins og þeir reyna stöðugt að gera, heldur greina frá henni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)