Nú skall ,,húdd" nærri hælum...

Í haust fagnaði ég þeim áfanga að eiga skuldlausan smábíl. Ég keypti hann nýjan haustið 2005. Þetta er gæðabíll sem hefur reynst mér og mínum vel. Ég og Þorgerður systir mín, ásamt Áslaugu dóttur minni vorum í smá bíltúr í gærkvöldi. Við komum að gatnamótunum Þar sem fyrir var bilaður bíll sem ekki komst áfram.

,,Eigum við ekki að athuga hvort við getum hjálpað", sagði ég við Þorgerði, sem var bílstjóri í ferðinni. ,,Hvað, við getum ekki hjálpað, nema kannski við að ýta bílnum", sagði hún.

Við skrúfuðum niður rúðuna og göntuðumst með það að það væri nú engin hjálp í svona konum, eins og okkur.

Bílstjórinn, sem var kominn á kaf í vélina hjá sér, leit upp og sagðist vel geta þegið hjálp. Spurði hvort hann mætti tengja á milli og fá hjá okkur rafmagn. Mikið var ég stolt af Meganinum mínum þarna. Í fyrsta skipti gátum við hjálpað einhverjum í nauð. Ef það er ekki alvörumál og vandræðalegt að vera rafmagnslaus á ljósum í Reykjavík, ja þá veit ég ekki hvað á að kalla það.

Eftir smá fát og fum við að finna opnunartakkann á húddinu og síðan að opna sjálft húddið þá tengdi gaurinn á milli og startaði sínum bíl. Segir ekki meira af því en hann lokaði síðan húddinu á okkar bíl og kvaddi okkur með virktum og við héldum okkar leið.

Skyndilega, eftir nokkurra mínútna akstur í rokinu fauk húddið upp og nánast á framrúðuna. Allt varð grátt...eða silvurlitað. Reynsluboltinn Þorgerður bremsaði snilldarlega og án þess að rekast utan í kantstein stoppaði hún bílinn. Hann hafði þá ekki lokað húddinu nógu vel, blessaður gatnamótagaurinn. Okkur tókst að þvínga húddið niður og loka því. Húddið má muna sinn fífil fegri. Því verður skipt út fyrir nýtt fljótlega.

Hvað lærðum við þarna. Í fyrsta lagi, alltaf að ganga úr skugga um að hlutirnir séu í lagi (vona að flugfreyjurnar passi þetta áður en flogið er) það felst engin vantraustsyfirlýsing í því og í öðru lagi að vera á réttum hraða. Við ókum á sirka 40 km hraða og vorum rétt ókomnar út á Hafnarfjarðarveginn. Það er ekki víst að þetta óhapp hefði endað eins vel ef við hefðum verið komnar þangað. Þarna skall hurð nærri hælum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband