29.4.2009 | 19:35
Veisla á Hótel Pabba...
Í dag fór pabbi í stuttbuxurnar enda stóðu mikið til. Í kvöldmatinn var gæs, brúnaðar kartöflur, grænmeti og uppbökuð rjómasósa. Ítalskt eðal rauðvín var drukkið með. Á sumardaginn fyrsta fór hann líka í stuttbuxurnar sínar, þá eldaði hann humar í hvítlaukssósu.
Við mæðgur, ég og Áslaug Sóllilja, eru gestir á Hótel Pabba í nokkrar vikur og hér lifum við eins og blóm í eggi. Ég á ekki nógu sterk lýsingarorð til að lýsa sósunni meða gæsinni. Pabbi tók hrósinu af lítillæti en benti á bikar uppi á hillu sem hann fékk fyrir að vera besti sósugerðarmaðurinn hjá félögum sínum fyrir nokkru.
Skemmtilega sögðu sagði hann okkur yfir matnum. Eitt sinn þegar pabbi var 15 ára lá amma á spítala í nokkrar vikur. Pabbi vildi ekki borða neins staðar annars staðar en heima og hann eldaði ofan í sig og yngri bróður sinn, Þór á meðan amma var í burtu.
,,Og hvað var í matinn", spurði ég.
,,Lax, æðarfugl og ávaxtagrautur", svaraði pabbi um hæl.
,,Hvar fékkstu lax og æðarfugl"?, spurði ég.
,,Nú, ég fór og veiddi lax í Blöndu og svo fór ég niður í fjöru og skaut æðarfugl", svaraði sá gamli. ,,og grautinn bjó ég til úr þurkuðum eplum, apríkósum og sveskjum. Sauð hann í hálftíma og þykkti hann aðeins með kartöflumjöli. Hann dugði í tvo til þrjá daga með hnausþykkum rjóma", sagði hann og bætti svo við með þungri áherslu: ,,þetta var sko áður en pítsuöldin gekk í garð á Íslandi".
Það er ekki kreppa í eldhúsinu hjá pabba. Það leynist ýmislegt í frystikistunni hans, sem hann nýtir þessa dagana. Hjá okkur mæðgum eru ,,jólin" og ilmurinn úr eldhúsinu er svo lokkandi...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.