13.6.2009 | 20:35
Öldruðum boðið að búa í óþefnum í Álfsnesi...
Þeim er vissulega vorkunn í Mosfellsbænum þegar fnykinn úr Álfsnesi leggur til þeirra. Ég tala nú ekki um þegar fýluna leggur yfir nýja og fína hverfið í Leirvogstungu. Ég get samst ekki fundið til með þessum íbúum. Það eru aðrir sem eiga samúð mína hvað þetta varðar og það eru íbúar og starfsfólk í Víðinesi.
Víðines tilheyrir stofnunum Hrafnistu og þar býr gamalt fóllk og lasburða. Ekki hef ég orðið vör við það að kvartanir heyrist frá þessu gamla fólki, alla vegana þá rata þær ekki í fjölmiðla. Ég ætla því að koma á framfæri kvörtun fyrir þeirra hönd og tel mig hafa fullan rétt til þess, þar sem ég kem nokkuð oft að Víðinesi til að heimsækja móður mína sem þar býr.
Stundum er fýlan svo mikil að hún veldur hjá mér ógleði þegar ég keyri fram hjá haugunum. Það getur ekki verið gott fyrir fólk að búa svona nálægt haugunum, hvað þá aldrað fólk og lasburða. En, þeir sem yfir þessum málum ráða telja greinilega að þetta sé í lagi.
Mér skilst að til standi að byggja við Víðines í framtíðinni. Ég ætla að vona að búið verði að urða haugana þegar að því kemur og menn sjái sóma sinn í því að aka með ruslið eitthvert annað, fjarri mannabyggð.
Ef Mosfellingum finnst ástandið ekki bjóðandi þá ættu þeir að hugsa til gamla fólksins sem býr á Víðinesi. Gamla fólksins, sem enginn tekur lengur mark á og verður að láta sér lynda fýluna frá haugunum því það á ekki í nein önnur hús að venda. Þetta mál er okkur til skammar.
Íbúarnir flýja inn vegna óþefs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.