Færsluflokkur: Bloggar

Fyrningarleiðin í sjávarútvegi...er eitthvað betra í boði?

Ég þoli ekki bullið í sjálfstæðismönnum þegar kemur að sjávarútveginum. Þeir eru auðvitað að verja það að einstaklingar eigi að eiga og fara með auðlyndir þjóðarinnar. Í mínum huga hafa margir útgerðarmenn fyrir löngu fallið á prófinu og ég hvet fjölmiðla til að fara ofan í saumana á því hvernig sumir menn hafa hagað sér innan greinarinnar.

Í þorpi einu úti á landi var öllum sagt upp í einu fyrirtæki í sjávarútvegi. Þetta voru rúmlega tuttugu manns. Fyrirtækið stóð ekki vel. Eigendur þess voru hins vegar fyrir löngu fluttir suður þar sem þeir voru duglegir að fjárfesta í ýmsum lúxus. Ljótt fannst mér að heyra að þeir hefðu greitt sér háan arð eitt árið þrátt fyrir að fyrirtækið væri rekið með miklum halla. Ég hélt nú bara að það væri ekki hægt að taka stórt lán til að greiða eigendum sínum arð í taprekstri.

Nú standa öll spjór á stjórnmálamönnum enda kostningar á morgun. En það verður líka að skoða fleiri aðila og nefni ég þá til sögunnar sveitarstjórnarmenn, sérstaklega á stór Reykjavíkursvæðinu og hvernig þeim tókst með græðginni einni saman að hækka lóðarverð þannig að ennþá erfiðara var fyrir fólk að reisa sér þak yfir höfuðið. Nú standa þar heilu hverfin hálfbyggð. Ekki skemmtilegur minnisvarði það!

 


Kosning utan kjörstaðar - útstrikanir...

Fór í Laugardalshöllina í dag og kaus ásamt dóttur minni. Kosningin gekk vel fyrir sig; 10 kjörklefar í boði og þeir sem þarna tóku á móti fólki voru ljúfir og elskulegir.

Það vakti athygli mína, að þegar kosið er utan kjörstaðar, þá eru engir nafnalistar sjáanlegir. Einungis er boðið upp á stimpla með bókstöfum framboðanna.

Þegar út var komið spurði ég starfsmanninn sem sinnti mér hvort ekki væri hægt að strika út af listunum nöfn. Jú, hún sagði það hægt. Ég ætti að skrifa nafn þess sem ég vildi ekki sjá á listanum, sem ég ætlaði að kjósa og strika síðan yfir nafnið. Hún bauð mér að kjósa aftur. Ég þáði það ekki.

En bíðum nú aðeins við. Eigum við þá að muna öll nöfnin áður en við göngum til kosninganna. Það getur verið gott að fá að virða fyrir sér nafnalistann svona rétt áður en maður krossar við það sem maður ætlar að kjósa. Aldrei að vita nema maður skipti um skoðun.

Þetta er klaufalegt hjá kjörstjórn að standa svona að málum. Það ætti ekki að vera neitt mál að afhenda fólki blað með nöfnum frambjóðenda í því kjördæmi sem það á lögheimili í.


Mikil mistök hjá Björgvini og reyndar fleirum, að bjóða sig fram...

Í kvöld verður Björgvin krafinn svara um það hvernig eigi að stoppa upp í 180 milljarða fjárlagagat. Hvernig í ósköpunum á hann að geta svarað því. Maðurinn sem svaf svo fast á sinni vakt sem viðskiptaráðherra. Þarna  stendur Samfylkingin sig illa.

Það sama má segja um Tryggva Þór hjá Sjálfstæðisflokknum. Ég hef enga trú á honum sem stjórnmálamanni eins og mál standa núna. Þannig er það bara.

Það er þetta með tilfinninguna og traustið. Það þarf að vinna traustið aftur með réttum gjörðum. Þetta eru ekki réttir menn í það.


Smáralind ehf. í miklum fjárhagserfiðleikum...

Fyrirsögnin fengin að láni af www.visir.is.

Ég legg til að Smáralind verði gerð að nýrri samgöngumiðstöð. Þangað komi og þaðan fari allar rútur sem flytja farþega á milli landshluta.

Smáralind er miðsvæðis og því er þetta tilvalið. Ég tala nú ekki um þegar innanlandsflugið verður komið til Keflavíkur, sem er eina vitið að mínu mati...og er ég þó landsbyggðarkona.


Gerum þetta bara sjálf...

Enn geta menn ekki komið sér saman um hvernig eigi að endurskoða stjórnarskrána. Hvernig væri að við, íbúar þessa lands, tækjum að okkur að skrifa nýja stjórnarskrá? Höldum stjórnmálamönnum algerlega utan við verkefnið. Best að byrja bara sem fyrst.

Stjórnmálamenn skilja það ekki ennþá að þeir eru í vinnu hjá okkur og þar á meðal mér! Þeir eiga að spyrja okkur: ,,Hvað viljið þið að við gerum fyrir ykkur? Hvað verk viljið þið, þjóðin, láta vinna?"

Við viljum að auðlyndir þjóðarinar séu eign þjóðarinnar. Ég er að tala um vatnið, jarðvarmann, fiskinn í sjónum og olíuna, ef hún þá finnst einhvern tímann.

Annars eigum við ekki að vera að velta fyrir okkur olíunni, við eigum að einhenda okkur í að finna lausnir varðandi vistvæna orku, eins og t.d. rafmagn á alla bíla á Íslandi. Ætlum við að láta aðrar þjóðir verða á undan okkur hvað þetta varðar. Olían er ekki framtíðin...það vita allir sem hugsa fram í tímann.

Já, gerum þetta bara sjálf. Förum með stjórnarskrána út í skólana og á vinnustaðina og fáum fólkið í landinu til að skrifa nýja stjórnarskrá.


Endurtekið efni...

Enn og aftur bregðast kjörnir fulltrúar hlutverki sínu. Það skiptir engu máli hvaða stjórnmálaflokkur á í hlut. Þeir eru allir eins. Kjörnir fulltrúar virðast hugsa fyrst og fremst um sjálfa sig, flokkinn sinn og vini sína.

Upplifði það eitt sinn að sitja í skólanefnd fyrir hönd kennara. Tveir skólar voru sameinaðir í einn og staða skólastjóra var laus. Fimm sóttu um, þar á meðal fyrri skólastjórar. Báðir höfðu þeir setið í bæjarstjórn í nokkurn tíma fyrir sitt hvorn stjórnmálaflokkinn. Við upphaf fundar í nefndinni lýstu fulltrúar beggja flokka, skólastjóranna fráfarandi, því yfir að þeirra umsækjandi væri hæfastur. Ekki virtist áhugi fyrir því að ræða til hlýtar menntun umsækjenda. Á endanum fékk hvorugur stöðuna en það er önnur saga.

Það sem vakti mína athygli á þessum tíma var hvernig nefndarmenn gengu múlbundnir til fundarins. Menn héldu með sínum umsækjanda; með sínum flokksbróður! Annað var ekki til umræðu.

Þegar bæjarfulltrúar sækja um stöður í sveitarfélaginu verður að fá algerlega hlutlausan fagaðila til að fjalla um umsóknirnar og fylgja helst ferlinu til enda. Hitt er svo annað mál að skólastjórar (og prestar) eiga ekki að vera í pólítik. Þeirra starf er þess eðlis að þeir verða að einbeita sér að sínu starfi, í þágu allra barna og foreldra innan skólans, hvar í flokki sem þeir standa. Skólastjórar verða að eiga trúnað allra sem í skólanum starfa. En...þetta er mín skoðun...að fenginni reynslu.


mbl.is Meirihlutinn í Grindavík sprunginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á rölti um Kaupmannahöfn í blíðunni...

Þá er ég búin að ganga 7 km í dag í Kóngsins Köben, enda ,,lappirnar" búnar eina og Kalli kallar fætur kvenna í nýja útlitsþættinum sínum á Skjá einum. Merkilegast þótti mér að ganga í gegnum Kristjaníu. Skrýtinn heimur sem er mér framandi, kannski sem betur fer.

Á leiðinni til baka gekk ég meðal annars fram hjá DUX verslun. Það er varla að maður þori að tala um svoleiðis verslanir í dag, það er eithvað svo út úr kortinu að láta sig dreyma um það að maður komi einhvern tímann til með að eignast Eggið hans Jakobsen...en ég hef alltaf sagt að það kostar ekkert að láta sig dreyma og enginn ætti að fara á hausinn á því. Nema hvað, þegar fyrir hornið á húsinu var komið ætlaði ég að skoða fleiri stóla en eitthvað brenglaðist fjarlægðarskinið hjá mér svo ég gekk á rúðuna. Ég var búin að búa mig undir að ganga á ljósastaura hérna úti, en ég átti til að gera það þegar ég var lítil...en ekki á verslunarglugga. Það kom sér vel að vera með góð gleraugu í þetta skiptið. Svona er þetta nú, alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast.

Og veðrið hérna í Kaupmannahöfn. Frábært í einu orði sagt.


Útrás fyrir skoðanir...

Þá er komið að því að búa til bloggsíðu á Mbl.is. Hef notað aðra síðu í nokkurn tíma eða bryndis.svanman.com og fengið ágætis útrás þar af og til. Það eru að koma kosningar svo um að gera að fá útrás hér í stað þess að tala fyrir daufum eyrum heima fyrir. Sjáum hversu dugleg ég verð. Skrifað í Kaupmannahöfn á skírdag 2009.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband