Verðbólgan sígur upp á við og kaupmáttur rýrnar

Tungumálið okkar tekur sífelldum breytingum og er ekkert við því að gera. Með nýjum kynslóðum koma inn nýjar merkingar orða; orð detta út úr málinu og önnur koma í staðin.

Sumar breytingar fara verulega í taugarnar á mér. Ætla að nefna tvær í þessum pistli:

Sú fyrri kemur fram í fyrirsögn þessa pistils. Margir virðast halda að sögnin að síga þýði hreyfingu eða breytingu upp á við. Sögnin að síga þýðir að eitthvað fari niður á við; sígi niður...en ekki upp á við. Samt nota nota margir sögnina að síga í merkingunni að eitthvað hreyfist upp á við, eins og til dæmis verðbólgan. Hvimleið málvilla.

Hitt sem fer í taugarnar á mér er þegar talað er um mikið af fólki, mikið af bílum og svo framvegis. Hér á að segja margir bílar; margt fólk. Það er undantekning ef til dæmis fréttamenn fara með þetta rétt. Þeir tala allir um ,,að í bænum sé mikið af bílum og mikið af fólki" og svo framvegis.  Svo nennir enginn lengur að leiðrétta fólk þegar það talar vitlaust og benda því að hvernig betra sé að segja hlutina.

Þannig er það nú bara.

 


Villandi fyrirsögn á frétt...

Fyrirsögn þessarar fréttar er afar villandi. Hún segir að 20% af þeim sem hafa flensu séu á gjörgæslu. Þegar fréttinn er lesin þá kemur í ljós að sú er ekki raunin heldur eru 20% þeirra sem liggja á gjörgæslunni með flensuna.

Með öðrum orðum; einn af hverjum fimm á gjörgæslunni er sjúklingur með flensu. Það er allt annað mál.


mbl.is 20% flensusjúklinga á gjörgæslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránlega vitlausar hugmyndir...nánast hlægilegar!

Á hvaða plánetu býr þessi snillingur; Ari Edwald? Heldur hann að við á landsbyggðinni munum koma til með að borga fyrir útgáfuna svo höfuðborgarsvæðið geti fengið blaðið frítt inn um sínar lúgur.

Við, landsbyggðarfólk, einfaldlega hættum að lesa blaðið og þá fækkar auglýsingum enn frekar þannig að útgáfunni verður sjálfhætt innan skamms.

Ég hvet þessa snillinga til að halda áfram að grafa!!


mbl.is Fréttablaðið selt úti á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verður að koma fólki í virkni...ef það sé þarna!

Það kemur fyrir að fólk láti út úr sér bölvaða vitleysu. Á laugardaginn var viðtal í fréttatíma RUV við konu hjá Reykjavíkurborg sem sagði margt skrýtið og þar á meðal að það yrði að koma fólki í virkni. Hvað þýðir þetta eiginlega? Sennilega á hún við að það þurfi að virkja fólk. Fá fólki einhver verkefni í hendur...að fólk hafi eitthvað fyrir stafni.

Annað dæmi og nokkuð skondið upplifði ég þegar ég fór inn á bensínstöð á Króknum nú um helgina og spurði hvort DV væri uppselt. Þá kom þetta gullkorn frá afgreiðslustúlkunni: Já, ef það ekki þarna!

Breytingar á tungumálinu er eðlilegar. Gaman væri að rannsaka hvað það er sem hefur áhrif á þessar breytingar og hvort það sé aðallega unga fólkið sem kemur með þessar breytingar inn í málið. Smá pæling hérna (Sögnin að pæla er, held ég, orðin viðurkennd í málinu) hjá mér.


Ég á bara til þrjú orð...mér er óglatt

Hafi ég einhvern tímann viljað forða mér af landinu mínu bláa þá er það núna.

Hvernig eiga Íslendingar að geta haldið uppi heilbrigðisþjónustu í nánustu framtíð? Hvernig eigum við að geta tryggt börnunum okkar góða menntun í nánustu framtíð? Hvað verður um gamla fólkið eftir svona tíu til fimmtán ár?

Hvar eru bankamennirnir, nei ég meina landráðamennirnir sem komu okkur í þessar skelfilegu aðstæður? Hvar eru stjórnmálamennirnir sem stóðu ekki sína vakt?

Eru þetta ekki landráð sem hér hafa verið framin í skjóli stjórnmálamanna, forseta og annarra sem áttu hagsmuna að gæta. Þetta eru svik við land og þjóð.

Mér er óglatt...


mbl.is 60-70 milljarða árleg greiðsla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósannfærandi glottandi Framsókn...

Ég horfði á beina útsendingu í dag frá Alþingi þegar Sigmundur Davíð vildi ræða fundarstjórn forsenda. Háttvirtur formaður Framsóknarflokksins hagaði sér eins og fífl í þinginu og uppákoma hans var afar ósannfærandi. Ég skil vel að það hafi hlaupið í skapið á forseta þingsins en hún virtist ekki láta hann slá sig út af laginu.

Þegar ég heyrði í Sigmundi Davíð fyrir nokkrum misserum í Silfri Egils tala um skipulag borga og gömul hús þá drakk ég í mig hvert orð sem hann sagði og var honum algjörlega sammála. Nú er allur glans farinn af honum. Ég tek ekki mark á einu einasta orði sem hann segir lengur. Að horfa á hann ganga glottandi niður úr ræðustól í dag var svo kornið sem fyllti mælinn. Halda framsóknarmenn að þeir séu í einhverjum ódýrum illa æfðum farsa!

Svona uppákomur eru einhvern vegin svo taktlausar á þessum síðustu og verstu tímum. Vonandi fækkar þessum léttvægu uppákomum; hvort sem þær eru um fundarherbergi Frarmsóknar eða einhver önnur mál sem skipta engu máli þessar vikurnar.


mbl.is Óásættanleg framkoma forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öldruðum boðið að búa í óþefnum í Álfsnesi...

Þeim er vissulega vorkunn í Mosfellsbænum þegar fnykinn úr Álfsnesi leggur til þeirra. Ég tala nú ekki um þegar fýluna leggur yfir nýja og fína hverfið í Leirvogstungu. Ég get samst ekki fundið til með þessum íbúum. Það eru aðrir sem eiga samúð mína hvað þetta varðar og það eru íbúar og starfsfólk í Víðinesi.

Víðines tilheyrir stofnunum Hrafnistu og þar býr gamalt fóllk og lasburða. Ekki hef ég orðið vör við það að kvartanir heyrist frá þessu gamla fólki, alla vegana þá rata þær ekki í fjölmiðla. Ég ætla því að koma á framfæri kvörtun fyrir þeirra hönd og tel mig hafa fullan rétt til þess, þar sem ég kem nokkuð oft að Víðinesi til að heimsækja móður mína sem þar býr.

Stundum er fýlan svo mikil að hún veldur hjá mér ógleði þegar ég keyri fram hjá haugunum. Það getur ekki verið gott fyrir fólk að búa svona nálægt haugunum, hvað þá aldrað fólk og lasburða. En, þeir sem yfir þessum málum ráða telja greinilega að þetta sé í lagi.

Mér skilst að til standi að byggja við Víðines í framtíðinni. Ég ætla að vona að búið verði að urða haugana þegar að því kemur og menn sjái sóma sinn í því að aka með ruslið eitthvert annað, fjarri mannabyggð.

Ef Mosfellingum finnst ástandið ekki bjóðandi þá ættu þeir að hugsa til gamla fólksins sem býr á Víðinesi. Gamla fólksins, sem enginn tekur lengur mark á og verður að láta sér lynda fýluna frá haugunum því það á ekki í nein önnur hús að venda. Þetta mál er okkur til skammar.


mbl.is Íbúarnir flýja inn vegna óþefs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur: Viltu ekki spyrja okkur, þjóðina, hvort við kærum okkur um að taka lán hjá Rússum. Ég segi nei takk...

Mikið vildi ég óska að menn hægðu nú aðeins á sér. Þrátt fyrir að vera tiltölulega græn og mikil félagshyggjukona þá vil ég ekki lán hjá vinum okkar í austri, Rússum.

Ég kvíði því sem hangir á spýtunni...og það hangir alltaf eitthvað á henni.

Annars þarf stjórnin að segja okkur hvað við skuldum og af hverju við skuldum svona mikið. Það hefur aldrei verið sett fram á mannamáli þannig að maður skilji það.


mbl.is Viðræður um Rússalánið hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir öflugir háskólar...nú erum við að tala saman!

Hugmyndin um tvo öfluga háskóla á Íslandi er góð, að mínu mati. Við verðum að fara að hugsa um það, Íslendingar, að við erum bara rúmlega 330 þúsund. Við verðum að forgangsraða og taka umræðuna um það hverju við höfum efni á og hverju við höfum ekki efni á.

Eitt af því sem við höfum ekki efni á er að vera með sex til sjö háskóla með öllu því sem fylgir hverjum og einum skóla. Því tel ég að við eigum að nota tækifærið núna og sameina háskólana. Halda áfram með háskóla- og nýsköpunarsetrin hringinn í kringum landið ásamt fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum, sem eru í nánum tengslum við háskólana.

Nú vona ég að menn og konur ræði þetta mál, nái samstöðu um það og standi þétt saman, því breytingin verður ekki sársaukalaus svona þegar til skemmri tíma er litið.


mbl.is Mæla með tveggja háskóla kerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hægt að dunda sér á ,,Facebook" þegar maður starfar við öryggisgæslu í sundlaug?

Góður sunnudagur í dag enda veðrið gott í Skagafirðinum. Fór í sund eins og venjulega. Ætla að fá smá útrás fyrir pirring núna vegna sundlaugarinnar; þá er það úr sögunni í bili.

Í sundlauginni minni er búið að skerða þjónustu við sundlaugargesti þannig að nú opnar laugin ekki fyrr en klukkan 10:00 um helgar og lokar klukkutíma fyrr á kvöldin. Hvers vegna ætli ákveðið hafi verið að opna kl. 10:00 um helgar í stað kl. 9:00 eins og áður var? Sé það ekki fyrir mér að knattspyrnumenn myndu þola það að ráðskast væri með þeirra æfingatíma eins og gert er við þá sem stunda sund sér til heilsubótar. Ætli þá yrði ekki allt vitlaust!

Í sundlauginni minni er nettengd tölva bæði í afgreiðslu og í vaktherbergi. Ég hef hvergi séð tölvu í vaktherbergi í sundlaug og hef ég heimsótt margar laugar.  Enda er það svo að ,,öryggisverðirnir" eru ansi oft límdir við tölvuna og ,,facebook" síðan opin í afgreiðslunni. Er þetta í lagi? Verða menn ekki að sætta sig við það að starfið getur verið ansi leiðigjarnt á köflum; það þarf ekki að líða langur tími ef eitthvað gerist ofan í vatninu til að afleiðingarnar geti orðið alvarlegar.

Þjónustukönnun fór fram í vetur hér í vetur vegna sundlaugarinnar. Enn hafa niðurstöður ekki verið birtar almenningi. Heilmikið íbúaþing fór líka fram í febrúar. Enn hefur ekkert heyrst af niðurstöðum þess. Fróðlegt væri að fá niðurstöður.

,,Sveitarfélagið er að spara", sagði einhver í morgun. Gott og vel, það þarf að spara en það er hægt að framkvæma hlutina í samráði við þá sem nýta sér þjónustuna. Samráðið við íbúana er bara í orði en ekki á borði...því miður.Hluti Húnahópsins í Sundlaug Sauðárkróks í des. 07 

Hér fylgir svo mynd af Húnahópnum, þeim frábæra félagsskap. En það eru þeir sem mæta fyrstir í sund á morgnana.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband